Þann 27.apríl síðastliðinn heimsótti einn stjórnarmeðlimur Volvoklúbbsins verksmiðju Volvo í Gautaborg. Tekið er á móti hópnum í Visitor Center, þar stóðu nýjir Volvo XC40 og S60 ásamt gömlum Amazon. Í Visitor Center eru einnig afhentir nýjir bílar en á sumum mörkuðum er hægt að óska eftir að fá nýja bíla afhenta í Gautaborg, fá kennslu og prufurúnt á bílnum áður en hann er svo fluttur til umboðsaðila sem afhendir hann svo eigandanum í sínu heimalandi. Frá Visitor Center er farið í Bluetrain sem keyrir fólk í gegnum verksmiðjuna og sýnir í grófum dráttum samsetningarferlið. Það verður að viðurkennast að strangar öryggiskröfur skemmi aðeins fyrir túrnum þar sem mikið af sjónarhorni úr lestinni er í gegnum öryggisgrindverk og oftar en ekki búið að hengja segl á girðingarnar þar sem suður eru í gangi. Eftir verksmiðjutúrinn lá leiðin í Brand Experience. Það var meiriháttar upplifun að fá að fara þangað, það er reyndar smá heilaþvottastöð þar sem er farið yfir afhverju Volvo er besti bíll í heimi en mikið verið að útskýra hin ýmsu smáatriði sem maður tekur ekki eftir öllu jafna. Að því loknu var litið við í Polestar Cube en þar stóðu til sýnis Polestar 1 og Polestar 2. Báðir bílar virkilega nettir og verður fróðlegt og spennandi að sjá hvort annar hvor þeirra eða báðir komi til landsins á næsta ári. Næsta stopp var Demo Center en þar er hægt að prófa nýjustu bíla Volvo. Á brautinni stóðu 23 Volvo bílar og fljótlegast að segja að eini bíllinn sem var ekki í boði var S60 en það voru amk. 2 V60 og annar þeirra T8 sem var að flestra mati lang skemmtilegasti bíllinn. Demo Center brautin er um 2 km. löng og um helmingurinn af henni mjög krefjandi beygjur. Síðasti dagskrárliður var síðan Volvo Museum með leiðsögn. Þetta var í annað skipti sem ég hef farið í gegnum Volvosafnið með leiðsögn og óhætt að mæla með því að fara frekar í gegnum safnið þannig því starfsfólk safnsins eru gangandi alfræðirit um allar Volvobifreiðar.
Þeir sem hafa áhuga á að heimsækja Volvo verksmiðjuna í Gautaborg geta sett sig í samband við Visitor Center. Það er vel þess virði að eyða einum degi þarna ef fólk er í nágreninu.
https://www.volvocars.com/en-om/about/our-company/experience-volvo-cars/visit-volvo-cars