Þessi mynd fer líklega í sögubækurnar en hún er tekin við Hof á Akureyri mánudaginn 10. apríl síðastliðinn af 12,7 tonna Volvo rafmagnsdráttarbíl eftir fyrstu ferð Íslandssögunnar Norður og sama dag aftur til baka til höfuðborgarinnar. Aldrei fyrr hefur svona þungum flutningabíl verið ekið á hreinu íslensku rafmagni þessa leið og reyndar hvergi á Íslandi fyrr en nú.
Um var að ræða prufuferð en starfsmenn Veltis, Volvo atvinnutækjasviðs Brimborgar, þeir Ólafur, Þórarinn og Ingólfur Már óku bílnum norður og aftur til baka. Fyrir utan að prófa bílinn á þessari krefjandi leið voru einnig allar hraðhleðslustöðvar prófaðar á leiðinni.
Allt gekk eins í sögu og því var enn eitt skrefið tekið í átt að 100% rafvæðingu þungaflutninga á Íslandi.
Frá þessu greinir Egill Jóhannsson á samfélagsmiðlum ásamt mynd.