Brimborg styrkir björgunarsveitir með flugeldakaupum

Brimborg hefur í gegnum árin átt farsælt samstarf við björgunarsveitir og til að mynda hefur Brimborg árlega styrkt Hálendisvakt þeirra fyrir erlenda sem innlenda ferðamenn.

Vegna góðs gengis á árinu hefur Brimborg ákveðið að styrkja björgunarsveitir Hjálparsveitar skáta í Reykjavík um 5.000.000 króna með flugeldakaupum. Skátar hafa selt flugelda til fjáröflunar frá árinu 1967 og sjá meðal annars um skipulag og framkvæmd stórfenglegrar flugeldasýningar á Menningarnótt sem öllum landsmönnum er kunnug.

„Styrkir frá fyrirtækjum eins og Brimborg eru afar mikilvægir okkar starfsemi til viðbótar við aðra fjáröflun björgunarsveitarinnar. Þessir fjármunir munu án efa nýtast afar vel í okkar mikilvægu starfsemi og varið í þágu landsmanna allra“, segir Brynjar Jóhannesson hjá Hjálparsveit skáta í Reykjavík.

„Aukinn ferðamannastraumur og aukinn fjöldi bíla í umferðinni á Íslandi kallar á enn meiri aðkomu björgunarsveitarmanna og álag á þá. Við teljum það vera samfélagslega ábyrð okkar að standa þétt við bakið á björgunarsveitunum enda afar mikilvægt að öryggi fólks í umferðinni sé ekki eingöngu tryggt með miklum og góðum öryggisbúnaði bifreiða heldur líka frábærum viðbrögðum og fyrirbyggjandi aðgerðum á landinu öllu“, segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar.

Comments are closed.