Frábær heimsókn í Velti

Í dag buðum við félagsmönnum í heimsókn í Velti, atvinnutækjasvið Brimborgar, en þeir eru til húsa í Hádegismóum 8 í Árbæ. Marteinn Jónsson framkvæmdastjóri Veltis tók vel á móti okkur og fræddi gesti um stærð húsnæðis og almennar upplýsingar um starfsemina. Hann sýndi okkur svo allt húsið og var endað í mötuneytinu á efri hæð hússins í volvo vöfflum og brauðtertu í boði Volvoklúbbs Íslands. Gestir fengu gefins lyklakippu og barmerki frá Velti og var mikil ánægja með það. Tæplega 35 manns mættu á viðburðinn sem tókst mjög vel.

Veglegt Volvo auglýsingaskilti stendur fyrir aftan húsið en það stendur í 15 metra hæð og er 7 metra breytt og 2 metra hátt. Þá starfa rúmlega 40 manns hjá Velti í þessu húsnæði sem var tekið í notkun árið 2018 og var algjörg bylting í starfsaðstöðu fyrir atvinnubifreiðar.

Þetta er viðburður sem við höfum reynt að halda í talsverðan tíma en covid og samkomutakmarkanir hafa komið í veg fyrir það.

Við þökkum rausnarlegar móttökur frá Velti og öllum þeim sem mættu á viðburðinn.

Næsti stóri viðburður sumarsins er áætlaður laugardaginn 21. maí næstkomandi, en hann verður nánar auglýstur þegar nær dregur.

Comments are closed.