Volvoklúbburinn stóð fyrir hittingi í Mosfellsbæ í gær þar sem Ólafur Árnason bauð okkur í skúrinn sinn og sýndi okkur verkefnið sitt. Hann er að gera upp frá grunni Volvo LV63 vörubíl, árgerð 1929. Þetta mun vera elsti Volvo bíll á Íslandi. Hann flutti bílinn inn fyrir nokkrum árum og lét smíða í hann nýtt farþegahús auk þess að hafa pantað marga upprunalega hluti sem vantaði í bílinn.
Það voru tæplega 25 félagsmenn sem mættu á þennan skemmtilega hitting, en til stóð að það yrði hópakstur að loknum hittingi, en því varð frestað þar sem ekki var hægt að fá aðgang að planinu á Hörpu, og ekki gafst tími til að skipuleggja nýja leið.
Félagið bauð upp á vöfflukaffi, kökur og drykki fyrir alla gesti.
Per Helgesson mætti á sínum víðfarna Volvo 145 og sagði okkur nokkrar ferðasögur. Per er eini erlendi félagsmaðurinn í klúbbinum og er einn af ritstjórum Volvo 140 Klubben sænska.
Næsti viðburður félagsins verður hópakstur í Borgarnes, laugardaginn 12. maí.