Kæri félagsmaður.
Nú er að hefjast þriðja starfsár Volvoklúbbs Íslands. Aldrei hafa fleiri verið skráðir í klúbbinn en nú og eru skráðir meðlimir um 160. Áður en lengra er haldið skulum við aðeins horfa aftur til ársins 2015. Haldnir voru alls 7 viðburðir sem heppnuðust vel þó svo að við hefðum viljað sjá fleiri félagsmenn mæta á viðburði. Meðal þeirra viðburða sem haldnir voru var hóprúntur á stórsýningu Fornbílafjelags Borgarfjarðar, hópferð á Eldstó á Hvolsvelli, skúrahittingur hjá Bílabræðrum, bein útsending frá frumsýningu S90 bílsins, hittingur á Bíladögum á Akureyri og árlegur Áramótarúntur Volvoklúbbsins.
Stjórnin er staðráðin í því að efla viðburði til muna á nýju ári en til þess að það gangi þurfa félagsmenn að taka virkan þátt í þeim. Því biðjum við þig, kæri félagsmaður, að fylgjast vel með og taka þátt í viðburðum eftir bestu getu. Okkar helsta boðunarleið á viðburði er Facebook, tölvupóstur og heimasíðan og því er gott að skoða það reglulega, en allir stórir viðburðir eru boðaðir með minnst tveggja vikna fyrirvara.
Í sumar stefnum við á að halda veglega bílasýningu í Brimborg og hér með óskum við eftir upplýsingum um bíla sem væru efnilegir á þessari sýningu. Hægt er að hafa samband við okkur með tölvupósti, info@volvoklubbur.is, einnig er símanúmer formanns á heimasíðu okkar.
Stjórnin vinnur nú að gerð viðburðardagatals fyrir árið sem verður aðgengilegt á heimasíðunni innan skamms auk þess sem það verður sent í tölvupósti til félagsmanna.
Pistill frá vefstjóra:
Vefurinn Volvoklubbur.is var eitt af fyrstu verkefnum stofnenda og stjórnar Volvoklúbbsins. Vefurinn fór í loftið í október 2013 og var hugsaður sem upplýsinga- og fræðsluvefur fyrir Volvo unnendur. Stöðugt hefur bæst við vefinn en þar er helst að finna fréttir frá klúbbnum, myndir úr félagsstarfi, viðtöl við íslenska volvo eigendur og margt fleira.
Einfalt skráningarform er á vefnum til að skrá sig í klúbbinn, þá eru ýmsir afslættir fyrirtækja fyrir félagsmenn að finna á vefnum.
Við viljum endilega hvetja félagsmenn að senda okkur upplýsingar um áhugaverða og eldri Volvo bíla en við reynum að skrá sögu þeirra og birta á vefnum.
Vefurinn hefur fengið tæplega 19.100 heimsóknir frá því um haustið 2013, og tæplega 84.000 blaðsíðuflettingar.
Alls eru 384 fylgjendur á Volvoklúbbur.is sem fá fréttir síðunnar á facebook veginn hjá sér. Þá eru tæplega 1500 manns skráðir í Facebook hóp Volvoklúbbs Íslands, en þar leita menn ráða varðandi viðgerðir og selja bíla sín á milli.
Magnús Magnússon, vefstjóri.