Pistlar

Áramótapistill formanns 2020

Kæru Volvo félagar.

Nú þegar árið er á enda þá er vert að líta yfir farinn veg. Út af dálitlu þá náðist ekki að halda alla viðburði eins og hefð hefur verið undanfarin ár. Náðum að skjóta inn aðalfundi 7. maí, Hvolsvallarúnt í júní (Suðurlandsrúnt),grilli hjá Óla Árna í júlí og fengum að sjá framgang á hans verkefni LV63. Ekki ætla ég að eyða orðum í það sem var þess valdandi að ekki var gert meira. Þið vitið af hverju. Áramótarúnturinn verður á sínum stað á gamlársdag.

Í ár var í fyrsta skipti glaðningur sendur með félagsskírteinum. Var það skemmtileg nýbreytni sem verður gert aftur og mun vera sendur smá glaðningur með félagsskírteinum 2021 til þeirra sem greiða gjöldin á tíma. Búið er að senda félagsgjöld í heimabanka til þeirra sem greiddu í fyrra auk nýrra félaga. Með félagsskíreinum og framvísu þess, fæst afsláttur hjá nokkrum fyrirtækjum sem hægt er finna á heimasíðu klúbbsins hér. http://volvoklubbur.is/klubburinn/tilbod-og-afslaettir/ .

Klúbburinn stækkar á hverju ári og í dag eru um 260 skráðir félagar. Í facebook hópi Volvoklúbbs Íslands eru 3.969 manns. Yfir 1.000 sem hafa líkað við og fylgja Volvoklúbbs síðunni á facebook. Þar birtast fréttir sem koma á heimasíðu Volvoklúbbs Íslands, www.volvoklubbur.is Klúbburinn var 7 ára á þessu ári og að okkar mati, gefur það góð merki um að þessi klúbbur er kominn til að vera.

Á komandi ári, vonumst við eins og allir, að lífið fari aftur í sama farveg og áður. Munum við því halda áfram með sömu viðburði og undanfarin ár og jafnvel einum bætt við.

Kæru félagar. Við í stjórn Volvoklúbbs Íslands óskum ykkur farsældar og friðar yfir hátíðarnar og gleðilegs nýs árs og von um að sjá sem flesta á öllum viðburðum 2021.

Ragnar Þór Reynisson

Formaður Volvoklúbbs Íslands.

Vorpistill 2017 frá formanni

Þá er vel liðið inní árið 2017 og með væntingum um gott sumar fara menn að huga að eðalbílunum sínum fyrir vorið og gera klárt fyrir fyrsta rúntinn og farnir að skipuleggja sumarfríið á Íslandi. Þá er um að gera að hafa bílana klára fyrir ferðalagið. Það er margt á dagskrá hjá Volvoklúbbi Íslands þetta árið. Stjórnin hefur undanfarin ár skipulagt viðburði sem hafa fest sig í sessi og nokkrir nýjir sem voru árið 2016 verða endurteknir í ár. Má þar nefna grill við Guðmundarlund sem verður haldið tvisvar í sumar og svo er markmiðið að endurtaka hinn magnaðan rúnt í samstarfi við Fornbílaklúbb Íslands. Í ár er mikið tilefni til að halda afmæli þetta árið. Þann 14. apríl næstkomandi verður 90 ár síðan fyrsta Volvo bifreiðin var framleidd og er því 14. apríl formlegur stofndagur Volvo. Ég hvet alla til að mæta á  viðburði ársins og setja áminningu í símana hjá sér á auglýsta dagskrá.

Sem formaður Volvoklúbb Íslands, hef ég oft hugsað hvort ég og klúbburinn gætum látið gott af okkur leiða, meira en að tengja saman áhugafólk um Volvo bifreiðar. Eitt sem brennur á mér er umferðarmenning á Íslandi. Heilt yfir er umferðarmenning góð. Fólk sýnir almennt tillitsemi og kurteisi. En það er alltaf einn og einn Jónas í umferðinni (hver er þessi Jónas? leitar orð: Jónas og fjölskylda). Og svo einn og einn sem vilja fara eftir sínum eigin umferðareglum og siðum því þeir halda að þeir eigi veginn aleinir. Það er með ólíkindum hvað maður upplifir mikinn dónaskap oft í umferðinni. Kannski gæti Volvoklúbbur Íslands haft jákvæð áhrif í umferðarmenningu með umfjöllun og jafnvel tekið höndum saman með öðrum bílaklúbbum. Við gætum byrjað á því að líta í eigin barm. Spurt sig, er ég Jónas í umferðinni sem vill stjórna umferðinni? Er ég afskiptasamur ef mér finnst einhver keyra vitlaust fyrir framan mig eða aftan? Vil ég reyna stjórna hvernig aðrir eru að keyra?

Gott ráð að hafa í veganesti þegar keyrt er í umferðinni: Vera þolinmóður, tillitsamur og kurteis.

Volvoklúbbsfélagar, það er ósk okkar í stjórn Volvoklúbbs Íslands að þið eigið gott ár á árinu 2017 og vonumst til að sjá sem flesta á þeim viðburðum sem eru á dagskrá í ár.

Ragnar Þór Reynisson

Formaður Volvoklúbbs Íslands

Vor pistill 2016 frá formanni.

Eins og oft áður, þá er mér hugleikið þessi Volvo della. Ég skil mjög vel að menn eru með bíladellu. En hvað er það að vera áhugamaður um Volvo bifreiðar? Hvað fær menn til að fá ástfóstur á Volvo? Hvað er það sem dregur menn að því að hafa áhuga á Volvo? Er það útlitið? Er það að því að hann er sænskur? Er hann tákn einhvers? Til að svara þessari spurningu þá er svarið líklega að finna í rannsókn sem gerð var í félagsvísindadeild í virtum háskóla í Finnlandi. Einnig er mjög líklega til fullt af greinum frá merkum háskólum í Bandaríkjunum um þennan sérstaka hóp í heiminum. En í alvöru, þá er það greinilegt að áhuginn er mikill hjá mörgum og aðrir fá þennan áhuga í vöggugjöf, eða nokkurskonar fjölskyldusjúkdómur. Svo enn aðrir hafa áunnið sér þennan áhuga.

Margir félagar í Volvoklúbbi Íslands eru bílaáhugamenn að upplagi og hafa áhuga á mörgum bílum. En Volvo virðist vera bíllinn sem er á bílastæðinu eða í bílskúrnum heima. Hvort sem hann er nýr, nýlegur, eldri eða fornbíll. Ekki má gleyma þeim sem hafa bara keypt Volvo bifreiðar í tugi ára og hafa átt tugi Volvo bifreiða.

Ég var staddur í Denver fyrir nokkrum vikum og keyrði daglega þar um í viku tíma. Það kom mér á óvart hversu mikið af nýjum Volvo bifreiðum er á götunum í Denver. Einnig var skemmtilegt að sjá að hversu mikið er af gömlum Volvo bílum og í flottu standi. Volvo áhuginn er sem sagt ekki bara íslenskt eða skandinavískt fyrirbæri. Hann er alþjóðlegur. Ef ég „GÚGLA“ Volvo klúbba, þá er að sjá að það eru mjög margir Volvo klúbbar til um allan heim og allir virðast þeir vera mjög fjölmennir og eru virkir.  Það eru t.d. Volvoklúbbur í Malasíu og stór klúbbur í Bandaríkjunum, www.vcoa.org . Til gamans má geta að á fyrsta áramótarúnti Volvoklúbb Íslands árið 2013 var staddur hér á landi Ungverji að nafni Bárdos Csaba sem er félagi í Volvoklúbb þar í land og er mikill áhugamaður um Volvo og safnar einnig Volvo bílamódelum. Í gegnum vefinn  mbl.is fréttir hann af rúntinum á Íslandi og hafði fyrir því að mæta upp við Perlu til að sjá hóprúntinn fara af stað. Ég náði að tali af honum og komst að því hver hann væri og hversu mikill áhugamaður hann er um Volvo bíla.

En ég held að ég ætli ekkert að vera leita svara af hverju er þessi Volvo áhugi er til staðar. Það er verkefni fyrir félagsvísindadeild háskólans. Og að öllu gamni slepptu, þá er þetta mjög virðulegt áhugamál. Hvort sem það er að eiga marga Volvo bíla, eiga marga gamla bíla, eiga sem flesta Volvo bíla um ævina,  og eða bara vita allt um Volvo bifreiðar. Tilgangur Volvoklúbb Íslands er einmitt að sameina áhugamenn um Volvo á einn stað og saman á einn vettvang.

Frá því klúbburinn var stofnaður hafa orðið til nokkrar hefðir sem gefa mönnum ástæðu til að hitta félagsmenn sem hafa sama áhuga. Það er að koma meira í ljós margir dýrgripir sem félagar í Volvoklúbbnum eiga. Má nefna 740 bílin hans Benedikts Gunnars Sigurðssonar. 245 sem er búinn að vera í sömu fjölskyldu síðan 1978 og er enn í notkun. Bíla eins þessa er vert að sýna og skylda fyrir alla áhugamenn að sjá. Þær hefðir sem hafa verið síðustu ár hjá klúbbinum, eru áramótarúntur, Borgarfjarðarrúntur á fornbílasýningu, Hvolsvallarrúntur. Bæði Borgarfjarðarrúnturinn og Hvolsvallarrúnturinn hafa verið mjög skemmtilegar ferðir. Taka daginn frá og fara með fjölskyldu eða vinum í ferð út úr bænum í Volvo bílalest. Stoppa og fá sér hressingu og njóta samveru góðra manna. Einnig var skúrahittingur sem tókst mjög vel.

Það verður greint frá viðburðum Volvoklúbbs Íslands fyrir árið 2016 í fréttasnepli sem verður sent til félagsmanna og birtist á heimsíðu Volvoklúbbsins og hvet ég þig volvoáhugamaður/kona að fylgjast vel með og vera með í flestum viðburðum.

Farið gætilega í umferðinni og sýnið aðgát. Eigum gott Volvo ár.

Ragnar Þór Reynisson, Formaður Volvoklúbbs Íslands.

 

Vorpistill 2014 frá formanni

Sæl verið þið Volvo áhugafólk

Eins og mörgum er kunnugt, þá var Volvoklúbbur Íslands formlega stofnaður 13.11.2013 og ný stjórn tók til starfa strax eftir stofnfund. Er því klúbburinn búinn að starfa rétt rúmlega hálft ár. Það hefur ýmislegt áorkast á þessum tíma. Sem dæmi, þá var opnuð heimasíða félagsins; volvoklubbur.is, facebook síða, sent út fréttatilkynningu um stofnun félagsins, hönnun á merki félagsins, Volvorúntar, útgáfa á félagsskírteinis ásamt vinnu í að fylla heimasíðuna af skemmtilegu efni. Svo var fyrsti Volvodagur haldinn, ef svo má kalla, í húsakynnum Brimborgar. Þar voru bílar á öllum aldri til sýnis og boðið var uppá ljúffengar Volvovöfflur með sultu og rjóma og skolað niður með kaffi eða gosi.

Enn eru eftir nokkrir mánuðir af þessu ári og ýmislegt eftir að gera. Og það er okkar von að sem flestir láti sjá sig og taki þátt í auglýstum viðburðum. Það er fátt skemmtilegra en að koma saman og deila áhugamáli sínu með öðrum. Sýna sinn bíl og sjá aðra. Félagsmenn í Volvoklúbbnum eru nú um 110 talsins og enn bætist í klúbbinn.

Svo í lokin langar okkur í stjórn Volvoklúbbs Íslands auglýsa eftir landsfulltrúum fyrir Volvoklúbb Íslands, s.s. fyrir vestur-, norður-, austur- og suðurland. Það eru margir Volvo áhugamenn á landsbyggðinni og það væri gott að hafa fulltrúa á því svæði sem skipulagði viðburði í nafni Volvoklúbbs Íslands, þurfa ekki að vera stórir. Senda inn myndir, greinar og skemmtilegar sögur. Ef þú hefur áhuga sendu okkur póst á postur@volvoklubbur.is og við verðum í sambandi við þig.

Kær kveðja

Ragnar Þór Reynisson

Formaður Volvoklúbbs Íslands

 

————————————————————————————–

Formannspistill – febrúar 2014

Kæru Volvoklúbbs félagar

Núna er fyrsta formlega starfsár Volvoklúbbs Íslands hafið. Síðasta dag ársins 2013 var haldinn áramótarúntur á vegum klúbbsins þar sem menn hittust við Perluna og óku þaðan hring um bæinn. Það var mjög góð þátttaka og mættu margir á skemmtilegir bílar svæðið. Volvoklúbburinn fékk mikla umfjöllun á mbl.is og átti það þátt í að fleirri mættu en von var á. Einnig var á Perluplaninu að einskærri tilviljun SAAB klúbburinn, sem var að enda sinn áramótarúnt og fara í Perluna. Skemmtileg tilviljun þar sem tvö sænsk bílamerki er um að ræða. Stjórnin er búin að funda tvisvar frá því hún tók til starfa og núna með hækkandi sól, þá fá fara tækifærin að koma fyrir félagmenn til að hittast og deila áhuga sínum á Volvo með öðrum.

 

Þá er það mál málanna: Fyrst bera að nefna að eindagi á greiðslu félagsgjalda fyrir árið 2014 var 30. janúar. Ég hvet ykkur sem eiga eftir að greiða félagsgjöldin að gera það fyrir 14. febrúar. Því nú liggur fyrir að fara gefa út fyrsta félagsskírteini Volvoklúbb Íslands og stefnt er á að vera búnir að prenta skírteinin í lok febrúar og afhenta félagsmönnum í byrjun mars með mikilli viðhöfn sem verður auglýst síðar. Aðeins þeir sem hafa greitt félagsgjöld fá afhent félagsskírteini. Þeir sem geta ekki verið viðstaddir afhendingu félagsskírteinisins, fá það sent í pósti.
Af öðrum stórum fréttum ber að nefna að það er búið að hanna flott merki fyrir Volvoklúbb Íslands sem verið er að leggja loka hönd á því verki. Svo liggur fyrir plan á Volvo rúntum sem verður auglýst síðar á heimsíðu klúbbsins. Verið vakandi á heimsíðunni www.volvoklubbur.is þar sem frétt um afhendingu félagsskírteina verður birt á næstunni.

 

Kær kveðja

Ragnar Þór Reynisson

———————————————————————

Formannspistill nóvember 2013.

Sælir félagar um land allt. (28.11.13)

Ný stjórn tók til starfa strax eftir stofnfund og ákvað að halda sinn fyrsta stjórnarfund þann 20.nóvember síðastliðinn. Enn og aftur fékk félagið afnot af fundarherbergi hjá Brimborg. Fyrsta mál á dagskrá var að setja í sæti fyrstu stjórnar félagsins. Svona lítur stjórnin út: formaður er Ragnar Þór Reynisson, ritari er  Hafsteinn Ingi Gunnarsson, gjaldkeri er Oddur Pétursson, meðstjórnendur eru Magnús Rúnar Magnússon og Ingólfur Hafsteinsson.

Eins og kemur fram í fundargerð sem verður birt innan tíðar, þá voru samþykktir lagfærðar samkvæmt samþykktum stofnfundar þann 13. nóvember, prentaðar út og undirritaðar af stjórn. Því næst hófust ýmsar umræður um framtíðarplön félagsins og heimasíðu þess. Eftir fund var farið að skrá félagið opinberlega og félagið nú komið með kennitölu. Því næst kemur bankareikningur svo félagsmenn geti að fara að greiða félagsgjöldin. Stjórnin mun senda tölvupóst og tilkynna þegar það verður klárt.

Stjórnin er búin að senda út fréttatilkynningar á miðla sem sumir hafa þegar birt, mbl.is, austurland.net, skessuhorn.is, brimborg.is og á facebook síðu Brimborgar. Og voru frábærar viðtökur á heimsíðunni og skráningu í félagið. Næst er að koma inn fyrstu afsláttarkjörum sem félagið hefur samið um og á aðeins eftir að útfæra þær og í framhaldinu sendir stjórn tölvupóst á félagsmenn.

Stjórnin er að vinna í því að setja inn efni á síðu félagsins, www.volvoklubbur.is er alltaf að koma inn nýtt og nýtt efni. Mig langar til að nefna að þeir sem hafa áhuga að senda inn greinar, pistla, reynslusögur, myndir og aðrar skemmtilegar upplýsingar eru velkomnir senda inn á postur(hja)volvoklubbur.is . Einnig geta menn komið sér í samband við stjórn félagsins ef þið hafið áhuga á senda reglulega inn efni og taka þátt í stækka heimsíðuna.

Það liggur margt fyrir að gera og undirbúa þar sem þetta er fyrsta starfsár félagsins, vantar reynslu á ýmsum hlutum. En við erum með reynslumikla menn í félagsmálum, vefsíðugerð og mikla áhuga menn um Volvo bíla í stjórn og þetta verður leikur einn. Svo að lokum deilið endilega fréttum áfram til vina og vandamanna, og ítreka við menn að skrá sig i félagið á þessu ári svo þeir verða titlaðir stofnfélagar.

 

Kær kveðja,

Ragnar Þór Reynisson,

Formaður

—————————————————————

Formannspistill frá stofnfundi.

Kæru Volvo áhugamenn og félagar. (14.11.13)

Til hamingju öll með hið ný stofnaða félag, Volvoklúbb Íslands.

Stofnfundur var í gærkvöldi og er stofndagur klúbbsins því: 13.11.2013.  Korter í átta stóð undirbúningsnefndin og beið spennt í samkomusal Brimborgar eftir að fyrstu félagar kæmu og fór nefndin að spá, hvort yrði fámennt eða bara tómur salur. Svo fór fólk að streyma inn og að endanum var setið í nær öllum sætum. Sá sem þetta skrifar hóf fundinn með því að koma með smá inngang sem mig langar að endursegja í endurbætri útgáfu. Vill taka fram strax í upphafi, að Brimborg stendur ekki að stofnun að þessum félagsskap, þetta er grasrót af áhugamönnum um Volvo bíla. En Brimborg hefur lagt til mikla aðstoð fyrir okkur svo þetta geti orðið að veruleika, undirbúningsnefndin hefur fengið að funda í húsnæði Brimborgar og svo buðu þeir okkur uppá drykki og meðlæti á stofnfundinum. Vill undirbúningsnefndin þakka Brimborg kærlega fyrir veitta aðstoð.  Svo vil ég líka taka fram að þetta félag er ekki bara ætlað eigendum gamla Volvo bifreiða heldur er þetta félagskapur og klúbbur fyrir Volvo áhugamenn.

Svo ég segi orlítið af mér. Mínar fyrstu minningar/kynni af Volvo sem ég man er þegar ég fékk að sitja í Volvo bifreiðinni hans afa þegar ég var polli á árunum 1973-1974. Hann afi var Volvo maður í mörg ár og lofaði Volvo bílnum sínum mikið. Man ég vel í smáatriðum hvernig bíllinn leit út að innan, hvernig mælaborðið leit út, veltitakkarnir sem breyttu hitanum í kalt og heitt og hvernig litirnir breyttust. Bíllinn hans afa var flottasti bíllinn í heimi og þarna smitaðist ég af Volvoveiki. Svo seinna tók veikin sig upp er ég fækk aukavinnu með skóla hjá Brimborg við að þrífa og standsetja nýja bíla á þeim tíma sem Brimborg tekur yfir Volvoumboðið. Þá rifjast þessar ferðir sem ég fór í fína Volvoinum með afa. Svo um 1993 byrja ég að vinna í fullu starfi hjá Brimborg og þá fer ég að verða mikið veikur af Volvoveikinni. Og svo verður hún orðin krónísk þegar ég tek við vöru- og sölustjórastarfi Volvo vara- og aukahluta.

Snúum okkur að stofnfundinum. Afhverju Volvoklúbbur? Einhverjir reka upp stór augu og verða hissa… allavega fékk ég dramatísk viðbrögð heima hjá mér þegar ég sagði frá þessu. Ég lagði mig allan fram að selja þessa hugmynd og fann sannfæringarkraftinn hjá mér og var viss um að ég seldi frúnni hugmyndina. Eftir alla ræðuna, þá sagði hún: “Ragnar ég skil þig stundum ekki”. En til að svara spurningunni, þá vitna ég í mína litlu sögu hvernig ég veiktist af Volvoveiki þá er það víst þannig að þeir sem smitast af Volvoveiki læknast aldrei. Svo er Volvoveikin ekki bannvæn. Þetta verður mikill áhugi, trú og traust á bílinn, fyrir suma er þetta trúarbrögð og Volvo lógóið er heilagt tákn. Við verðum má segja áhangendur og stuðningsmenn. Þetta er eins og fólk velur sér lið í fótbolta og fylgja því liði til dauðadags. Þá er áhuginn orðinn þannig hjá mér að ég vill fræðast og vita meira um Volvo, sjá og upplifa meira.  Svo í mínu starfi, þá sé ég að það er hópur að fólki sem hefur þennan sama brennandi áhuga og enn meiri áhuga heldur en ég.

Afhverju ekki að hópa þessu fólki saman, skapa vettvang til að hittast, kynnast þeim sem hafa sama áhuga og vera í félagskap með þeim. Ég fór að grenslast um hvort það væri ekki til félagskapur í kringum Volvo. Komst að því að það var stofnað á sínum tíma Volvo vinir, sem ég kann kannski ekki að segja frá hvað varð um.  Svo er núna fyrir nokkrum árum var stofnað volvospjall.is og svo tók brick.is yfir sem var spjall á netinu og með hitting nokkrum sinnum á ári og veitti þeim mikla ánægu sem tóku þátt og höfðu gaman af. Ég fór að spurja menn hvort það yrði einhver fjöldi sem mundi vera með í að stofna volvoklúbb, það lá ekki á svörum, jú, menn voru sannfærðir að það mundu margir vera með í því. Svo koma að því að við fórum að ræða þetta nokkrir góðir menn að láta þessa hugmynd verða að veruleika. Umræður fóru af stað í fyrra en svo á þessu ári var ákveðið að mynda undirbúningsnefnd og að við skildum vanda vel til verka. Gera þetta vel og rétt þannig að þessi félagskapur gæti vaxið og dafnað. Í undirbúningsnefnd hafa verið, Gunnar Bergþór Pálson, Bjarki Vilhjálmsson, Einar Unnsteinsson, Hafsteinn Ingi Gunnarsson, Gunnar H. Ingimundarson, Oddur Pétursson, Magnús Rúnar Magnússon og Ragnar Þór Reynisson.

Svo tók Gunnar H. Ingimundarson fundarstjóri við og tók við að kynna auglýsta dagskrá, drög að samþykktum voru lagðar fram til félagsmanna sem voru samþykktar með leiðréttingu á orðalagi í tveimur greinum og fundurinn lagði til að ný stjórn skyldi breyta 9. grein.  Svo kynntu þeir sig sem buðu sig fram til fyrstu stjórnar félagsins og varamanna. Og voru þeir einróma samþykktir. Í fyrsta stjórn félagsins, Volvoklúbbur Íslands sem var stofnað 13.11.2013 eru: Ragnar Þór Reynisson, Magnús Rúnar Magnússon, Hafsteinn Ingi Gunnarsson, Oddur Pétursson, Ingólfur Hafsteinsson. Varamenn eru Bjarki Vilhjálmsson og Einar Unnsteinsson.

Aðrir dagskráliðir voru kláraðir og fundarstjóri endaði fundinn með því að lýsa því yfir að hér með væri Volvoklúbbur Íslands formlega stofnaður og því var fagnað með þreföldu húrra og miklu lófaklappi. Á því augnabliki fann ég sterkt að þarna væri söguleg stund runnin upp. Í 86 ára sögu Volvo og 76 ára sögu Volvo á Íslandi er loks búið að stofna Volvoklúbb á Íslandi. Með hjálp félagsmanna á Volvoklúbbur Íslands eftir að lifa lengi og félagatalan eftir að aukast.

Markmiðið með þessu félagi er fyrst og fremst að stuðla að og efla tengsl milli áhugamanna um Volvo bifreiðar. Búa til vettvang og skipuleggja hittinga, rúnta, lengri og styttri ferðir, halda úti heimsíðu, fylla hana af sögum og myndum, fréttum og upplýsingum. Nú liggur þetta verkefni fyrir hjá fyrstu stjórn Volvoklúbbs Íslands, að koma þessu í framkvæmd og það er mikil tilhlökkun hjá stjórnarmönnum að hefjast handa.

Með Volvo kveðju

Ragnar Þór Reynisson.

————————————————————————————————–