Kæru Volvo áhugamenn og félagar.
Til hamingju öll með hið ný stofnaða félag, Volvoklúbb Íslands.
Stofnfundur var í gærkvöldi og er stofndagur klúbbsins því: 13.11.2013. Korter í átta stóð undirbúningsnefndin og beið spennt í samkomusal Brimborgar eftir að fyrstu félagar kæmu og fór nefndin að spá, hvort yrði fámennt eða bara tómur salur. Svo fór fólk að streyma inn og að endanum var setið í nær öllum sætum. Sá sem þetta skrifar hóf fundinn með því að koma með smá inngang sem mig langar að endursegja í endurbætri útgáfu. Vill taka fram strax í upphafi, að Brimborg stendur ekki að stofnun að þessum félagsskap, þetta er grasrót af áhugamönnum um Volvo bíla. En Brimborg hefur lagt til mikla aðstoð fyrir okkur svo þetta geti orðið að veruleika, undirbúningsnefndin hefur fengið að funda í húsnæði Brimborgar og svo buðu þeir okkur uppá drykki og meðlæti á stofnfundinum. Vill undirbúningsnefndin þakka Brimborg kærlega fyrir veitta aðstoð. Svo vil ég líka taka fram að þetta félag er ekki bara ætlað eigendum gamla Volvo bifreiða heldur er þetta félagskapur og klúbbur fyrir Volvo áhugamenn.
Svo ég segi orlítið af mér. Mínar fyrstu minningar/kynni af Volvo sem ég man er þegar ég fékk að sitja í Volvo bifreiðinni hans afa þegar ég var polli á árunum 1973-1974. Hann afi var Volvo maður í mörg ár og lofaði Volvo bílnum sínum mikið. Man ég vel í smáatriðum hvernig bíllinn leit út að innan, hvernig mælaborðið leit út, veltitakkarnir sem breyttu hitanum í kalt og heitt og hvernig litirnir breyttust. Bíllinn hans afa var flottasti bíllinn í heimi og þarna smitaðist ég af Volvoveiki. Svo seinna tók veikin sig upp er ég fækk aukavinnu með skóla hjá Brimborg við að þrífa og standsetja nýja bíla á þeim tíma sem Brimborg tekur yfir Volvoumboðið. Þá rifjast þessar ferðir sem ég fór í fína Volvoinum með afa. Svo um 1993 byrja ég að vinna í fullu starfi hjá Brimborg og þá fer ég að verða mikið veikur af Volvoveikinni. Og svo verður hún orðin krónísk þegar ég tek við vöru- og sölustjórastarfi Volvo vara- og aukahluta.
Snúum okkur að stofnfundinum. Afhverju Volvoklúbbur? Einhverjir reka upp stór augu og verða hissa… allavega fékk ég dramatísk viðbrögð heima hjá mér þegar ég sagði frá þessu. Ég lagði mig allan fram að selja þessa hugmynd og fann sannfæringarkraftinn hjá mér og var viss um að ég seldi frúnni hugmyndina. Eftir alla ræðuna, þá sagði hún: “Ragnar ég skil þig stundum ekki”. En til að svara spurningunni, þá vitna ég í mína litlu sögu hvernig ég veiktist af Volvoveiki þá er það víst þannig að þeir sem smitast af Volvoveiki læknast aldrei. Svo er Volvoveikin ekki bannvæn. Þetta verður mikill áhugi, trú og traust á bílinn, fyrir suma er þetta trúarbrögð og Volvo lógóið er heilagt tákn. Við verðum má segja áhangendur og stuðningsmenn. Þetta er eins og fólk velur sér lið í fótbolta og fylgja því liði til dauðadags. Þá er áhuginn orðinn þannig hjá mér að ég vill fræðast og vita meira um Volvo, sjá og upplifa meira. Svo í mínu starfi, þá sé ég að það er hópur að fólki sem hefur þennan sama brennandi áhuga og enn meiri áhuga heldur en ég.
Afhverju ekki að hópa þessu fólki saman, skapa vettvang til að hittast, kynnast þeim sem hafa sama áhuga og vera í félagskap með þeim. Ég fór að grenslast um hvort það væri ekki til félagskapur í kringum Volvo. Komst að því að það var stofnað á sínum tíma Volvo vinir, sem ég kann kannski ekki að segja frá hvað varð um. Svo er núna fyrir nokkrum árum var stofnað volvospjall.is og svo tók brick.is yfir sem var spjall á netinu og með hitting nokkrum sinnum á ári og veitti þeim mikla ánægu sem tóku þátt og höfðu gaman af. Ég fór að spurja menn hvort það yrði einhver fjöldi sem mundi vera með í að stofna volvoklúbb, það lá ekki á svörum, jú, menn voru sannfærðir að það mundu margir vera með í því. Svo koma að því að við fórum að ræða þetta nokkrir góðir menn að láta þessa hugmynd verða að veruleika. Umræður fóru af stað í fyrra en svo á þessu ári var ákveðið að mynda undirbúningsnefnd og að við skildum vanda vel til verka. Gera þetta vel og rétt þannig að þessi félagskapur gæti vaxið og dafnað. Í undirbúningsnefnd hafa verið, Gunnar Bergþór Pálson, Bjarki Vilhjálmsson, Einar Unnsteinsson, Hafsteinn Ingi Gunnarsson, Gunnar H. Ingimundarson, Oddur Pétursson, Magnús Rúnar Magnússon og Ragnar Þór Reynisson.
Svo tók Gunnar H. Ingimundarson fundarstjóri við og tók við að kynna auglýsta dagskrá, drög að samþykktum voru lagðar fram til félagsmanna sem voru samþykktar með leiðréttingu á orðalagi í tveimur greinum og fundurinn lagði til að ný stjórn skyldi breyta 9. grein. Svo kynntu þeir sig sem buðu sig fram til fyrstu stjórnar félagsins og varamanna. Og voru þeir einróma samþykktir. Í fyrsta stjórn félagsins, Volvoklúbbur Íslands sem var stofnað 13.11.2013 eru: Ragnar Þór Reynisson, Magnús Rúnar Magnússon, Hafsteinn Ingi Gunnarsson, Oddur Pétursson, Ingólfur Hafsteinsson. Varamenn eru Bjarki Vilhjálmsson og Einar Unnsteinsson.
Aðrir dagskráliðir voru kláraðir og fundarstjóri endaði fundinn með því að lýsa því yfir að hér með væri Volvoklúbbur Íslands formlega stofnaður og því var fagnað með þreföldu húrra og miklu lófaklappi. Á því augnabliki fann ég sterkt að þarna væri söguleg stund runnin upp. Í 86 ára sögu Volvo og 76 ára sögu Volvo á Íslandi er loks búið að stofna Volvoklúbb á Íslandi. Með hjálp félagsmanna á Volvoklúbbur Íslands eftir að lifa lengi og félagatalan eftir að aukast.
Markmiðið með þessu félagi er fyrst og fremst að stuðla að og efla tengsl milli áhugamanna um Volvo bifreiðar. Búa til vettvang og skipuleggja hittinga, rúnta, lengri og styttri ferðir, halda úti heimsíðu, fylla hana af sögum og myndum, fréttum og upplýsingum. Nú liggur þetta verkefni fyrir hjá fyrstu stjórn Volvoklúbbs Íslands, að koma þessu í framkvæmd og það er mikil tilhlökkun hjá stjórnarmönnum að hefjast handa.
Með Volvo kveðju
Ragnar Þór Reynisson.