Hópferð Volvoklúbbs Íslands á Hvolsvöll

Sunnudaginn 7.júní stóð Volvoklúbbur Íslands fyrir hópferð um suðurlandið. Þetta hefur verið árlegur viðburður frá stofnun klúbbsins og fer hópurinn stækkandi með hverju ári. Í þetta skipti lögðu af stað 10 bílar frá Reykjavík og óku í halarófu á Selfoss þar sem 5 bílar biðu á planinu fyrir aftan N1. Smá töf varð á brottför frá Selfossi þar sem á planinu var stúlka með ónýtt dekk og meðlimir stukku til og hentu undir varadekkinu fyrir dömuna. Magnús Hlynur hefði sennilega náð að gera frétt um þetta ef þetta hefði ekki tekið skot stund. Leiðin lá síðan að Kaffi Eldstó á Hvolsvelli þar sem Þór tók á móti hópnum en því miður þá náðist ekki að leggja öllum bílunum fyrir framan kaffihúsið þannig að hópmynd af fákunum var tekin á N1 planinu. Eins og venjulega flugu Volvosögur fram og til baka á meðan fólk nærði sig á Eldstó áður en bílunum var raðað upp fyrir myndatöku. Venjulega hefur viðburðinum verið slitið á Hvolsvelli en í ár var einn meðlimur klúbbsins sem býr á Stokkseyri tilbúinn í að fá hópinn í heimsókn og var slegið til og Volvoklúbburinn bauð upp á sínar frægu Volvovöfflur sem hurfu ofan í mannskapinn. Mjög vel heppnaður viðburður og vonum að allir hafi haft gaman af og láti sig ekki vanta á næsta ári og vonandi að það bætist fleiri í hópinn.

 

Comments are closed.