Við sem ökum eldri bílum af Volvo þekkjum það vel hvaða tól og tæki hafa bjargað okkur í gegnum tíðina þegar einhver óvænt bilun á sér stað á versta tíma. Með þessum stutta pistli vildi ég benda á nokkra hluti sem ég get mælt með hafa hafa í bílnum, sem getur nýst í neyð, hvort sem þú ert á nýlegum eða eldri bíl. Þetta eru nokkrar dæmisögur sem ég hef lent í og hef lært mikið af þessum óhöppum.
Loftlaust dekk
Það þekkja það allir að hafa fengið gat á dekk sem lekur hratt úr, en í slíkum aðstæðum hef ég nýlega lent í og var ekki með neitt til að bjarga málum. Það er alltaf hægt að hringja í neyðaraðstoð hjá Tryggingafélögum okkar, en það getur kostað pening og tekur óratíma að fá aðstoð á svæðið. Þegar svona gerist þá getur það bjargað manni að eiga loftdælu sem tengd er við 12 volt. Þannig getur maður náð að koma sér á næsta hjólabarðaverkstæði til að fá lagfæringu.
Pústkerfið losnar
Önnur saga sem margir ættu að þekkja, þegar pústkerfið losnar undan bílnum á versta mögulega tíma. Í sumar lentí ég í því að aftari helmingur pústkerfisins losnaði frá festingu og datt niður. Nú voru góð ráð dýr með ungabarn í bílnum og óvænta bilun. Í þessu tilfelli hefði verið frábært að hafa einhver slags stálvír til að hengja pústið upp til bráðabirgða þar til maður kemst á næsta pústverkstæði. Það sem ég hafði óvænt í skottinu var Power Rafmagnskapall úr tölvu. Það dugði til að hífa pústkerfið af jörðinni og ég gat komist heim. Þetta kenndi mér að gott væri að eiga góðan stálvír sem ég keypti svo í framhaldinu og getur flokkast undir neyðartæki í svona aðstæðum.
Bíllinn fer ekki í gang
Við þekkjum það að bílarnir geta verið misjafnir í gang, og þá eldri bílar sérstaklega. Í aðstæðum þar sem rignt hefur mikið og bíllinn staðið óhreyfður í einhverja daga eru kjör aðstæður fyrir bíla sem hafa gamla kertaþræði, kerti og kveikjulok. Þessi lenti ég reglulega í á eldri Volvo, og ráðið sem ég hafði var brúsi af Wire-dryer. Hann þurrkaði upp rakann þegar spreyjað var á kertin, kertaþræðina, og háspennukeflið. Svona brúsa er ég alltaf með í bílnum og er hluti af mínum neyðarpakka. Þá er gott að fara reglulega og láta mæla rafgeyminn, því það getur haft mikið að segja í svona aðstæðum.
Ferðalagið
Þegar lagt er í ferðalag, eða stutta ferð er alltaf gott að hafa bílinn vel búinn, maður veit aldrei hvenær eittthvað óvænt gerist, og þá er gott að vera vel útbúinn. Hérna eru nokkrir hlutir sem ættu að vera í öllum bílum, hvort sem það er sumar eða vetur. Athugið að þetta er ekki tæmandi listi, heldur eitthvað sem pistlahöfundur getur mælt með.
Startkapplar, heilt varadekk, helstu verkfæri, auka perur í aðalljós og bremsuljós, rúðuvökvi, auka rúðuþurrkur, auka öryggi, loftdæla, stálvírar sem upphengjur, nesti, hlýr fatnaður, farsími og bílhleðslutæki, slökkvitæki og sjúkrataska.
Þeir sem hafa álíka sögu að segja mega endilega senda okkur póst og við getum bætt því við hér í pistilinn. Netfangið okkar er postur(hja)volvoklubbur.is.