Innflutningur á Volvo 66 til Íslands eftir að hafa fundist í hlöðu í Danmörku

Aðsend grein eftir Konrad Korabiewski, sem er búsettur á Íslandi og er að flytja inn Volvo 66 árgerð 1975, en þessir bílar voru seldir af Velti HF á sínum tíma á Íslandi. Við fáum frekari fréttir þegar bíllinn er kominn til landsins.

Volvo 66 – 1975, bjargað úr hlöðu í Danmörku. – Eftir Konrad Korabiewski

Um daginn varð ég fyrir miklum vonbrigðum með sjálfan mig og pirringur minn varð með tímanum að öfund. Það sem var kveikjan að þessu var eftir að ég sá til sölu Volvo Laplander C202 sem hafði verið í geymslu í gamalli hlöðu á Austfjörðum. Gripurinn var til sölu á aðeins 150 þúsund íslenskar krónur. Ég trúði ekki mínum eigin augum þegar kærastan mín sýndi mér færsluna á facebook. En hann var nógu góður af myndunum að dæma. Þetta var sannkallaður hlöðufundur (e. barn find). Sjálf vetrardekkin voru í svo góðu ásigkomulagi að bara þau ein myndu kosta 150 þúsund. Bíllinn var á bak og burt sama kvöldið og hann var settur á sölu.
Sem mikill vintage volvo áhugamaður geng ég ávallt rösklega til verka og eftir þetta var ég staðráðinn í að læra af mistökum mínum og ekki vera svona seinn til þegar svo gott tækifæri býðst. Þá á ég við möguleikann á að kaupa retro hágæða Volvo með sögulegt og menningarlegt gildi fyrir lítinn pening.
Merkilegt nokk, þá kom tækifærið aftur 2 vikum seinna þegar ég sá Volvo 66 til sölu í Danmörku. Hann var auglýstur sem vintage varahlutir, þótt bíllinn væri greinilega heill. Hann var til sölu á 1.500 danskar krónur, ca. 30 þúsund íslenskar.

Hlöðufundur, yfirgefinn í óþekktan tíma.

Vélin er föst.
Án skráningarskírteinis eða annarra pappíra. Tæknilegt ástand óþekkt.
Þetta gat ekki verið betra! Ást við fyrstu sýn. Ég bað seljandann strax að taka bílinn frá fyrir mig á meðan ég gæti fundið frekari upplýsingar um þessa gerð af Volvo sem ég hafði aldrei heyrt um.
Það var í Hollandi sem löglega freðnir verkfræðingar fundu upp á litlu, skrítnu skepnunni Volvo 66, upprunalega hannaðri af Giovanni Michelotti. Bifreiðin getur, með hjálp hinnar frægu reimdrifnu CVT Variomatic skiptingu, keyrt jafn hratt bæði aftur á bak og áfram… Þarf ég að segja meira?
Stærstur hluti línunnar var til sölu á meginlandi Evrópu en Volvo 66 var, af góðri ástæðu, aldrei samþykktur í heimalandinu, Svíþjóð, þótt menn höfðu reynt það með innflutningi á sérstökum limited edition GL station bíl (1000 eintök).

En allt í lagi, rétt skal vera rétt. Þetta er alls enginn Volvo – heldur DAF 66 (og enn frekar DAF 55) sem Volvo yfirtók og gerði að Volvo Car B.V Nederland.
Sem sagt betrumbætt Volvo útgáfa af DAF, aðallega hvað varðar öryggi.
Þetta er virkilega einstakur, áhugaverður og öðruvísi bíll og í dag ákaflega sjaldgæfur. Það mikilvægasta fyrir mig sem ástríðufullan áhugamann er að Volvo 66 er sögulega tengdur P900 línunni. Þetta myndi vera þekkt sem farsæla Volvo 300 línan.

Volvo hefur tilfinningu fyrir virðinu í því að framleiða gæðabíla með sérstaka áherslu á öryggi og ekki síst tæknilegan áreiðanleika. Sjálfur tel ég að það séu nokkrar ástæður fyrir því að Volvo sá möguleikana í DAF 66 og valdi að endurbæta og þróa bifreiðina í flokki fyrirferðarlítilla fjölskyldubíla á árunum 1975-1980.
Þetta DL módel frá 1975 hefur nú þegar sögulegt gildi og er nú nýi Volvo safngripurinn minn sem mun flytja til Íslands. Sumir eyða tíma sínum og peningum í Bitcoin. Ég eyði þeim í gamla Volvo. Framhald síðar!

Þýtt frá dönsku yfir í íslensku: Guðbjörg María Jósepsdóttir.

Comments are closed.