Keyrður í sína eigin jarðaför í eigin Volvo 240

Volvo dýrkun og ást er erfitt að mæla. En hér er saga sem Friðrik Elís Ásmundsson skrifar á Volvo240fan síðu á facebook og við fengum leyfi til að birta. Þessi magnaða og hjartnæma saga verður að fá vera sögð öllum Volvo áhugamönnum. Sigurpáll Árnason, afi Friðriks fæddist í Ketur í Hegranesi. Hann var kaupmaður í versluninni Lundi í Varmahlíð og svo bóndi á jörðinni Íbishól. Sigurpáll keypti nýjan Volvo 240 station árið 1987 með bílnúmerinu K-1540 og átti hann bílinn alla sína ævi. Sigurpáll átti heima bróðurpart af sinni ævi í Varmahlíð. Síðustu árin sín bjó hann á hjúkrunarheimili á Boðaþingi í Kópavogi. Hann andaðist nóvember 2018 og hann átti aðeins eina ósk. Við skulum gefa Friðriki Elís orðið:

Afi minn keypti þennan Volvo 240 nýjan árið 1987.
Hans hinsta ósk var að vera keyrður í bílnum sínum frá hjúkrunarheimilinu sem hann bjó síðustu árin, í kirkjugarðinn eftir að hann andaðist.
Ég og annar fjölskyldumeðlimur keyrðum hann um fimm hundruð kílómetra frá Suðurlandi á Norðurland þar sem hann bjó mest alla ævi.
Keyrslan tók um sex tíma með viðkomu á leiðinni í hamborgara í Staðarskála. Síðan var stoppað við Íbishól gömlu jörðinni hans við Varmahlíð fyrir síðustu kveðjustund.
Amma mín átti líka svipaðan akstur aftur í sama Volvo árið 2004 þegar hún kvaddi.
Þegar ég var 15 ára árið 1990 kenndi afi minn mér að keyra á þessum bíl á malarvegi í sveitinni.
Nú er þessi bíll minn og verður að eilífu
.“

Svo þegar nær dró á áfangastað, þá skiptust ættingar á að keyra síðasta spölinn. Sigurpáll var jarðaður á Sauðárkróki.

Comments are closed.