Safnarúnturinn 2022

Volvoklúbbur Íslands stóð fyrir hópferð annað árið í röð undir heitinu Safnarúntur. Í fyrra var Reykjanesið heimsótt en í ár voru uppsveitir Árnessýslu heimsóttar. Ákveðið var að fara fyrr af stað en við höfum gert í dagsrúntum og lagði glæsileg átta bíla Volvolest af stað frá Olís Norðlingaholti á slaginu 10:00 í blíðskaparveðri. Fyrsta stopp lestarinnar var á N1 planinu á Selfossi þar sem tveir bílar bættust í lestina. Eins og venjulega þá vakti hópurinn mikla athygli þeirra sem áttu leið hjá.

Fyrsta stopp hópsins var skúraheimsókn hjá hjónunum Birgi og Kristjönu í Árnesi sem tóku höfðinglega á móti hópnum. Á staðnum var gullfallegur nýuppgerður Volvo 144 og ekki síðri Bronco en báðir bílar litu út eins og þeir væru nýkomnir af færibandinu. Einnig var á svæðinu Lapplander og 240 bíll sem vöktu athygli hópsins. Leið hópsins lá síðan að Samansafninu á Sólheimum rétt austan við Flúðir. Það er óhætt að mæla með heimsókn þangað en á safninu má finna óendanlegt magn af hversdagshlutum sem flestir fæddir fyrir aldamót ættu að kannast við. Eins er fallegt bílasafn á staðnum og nokkrir traktorar. Frá Sólheimum lá svo leið okkar að Lindinni Veitingastað á Laugarvatni þar sem við tókum snögga skoðun á nýlega uppgerðum Land Rover og hópurinn nærði sig á Hreindýraborgurum eða Bleikju. Eftir matinn var svo spjallað og sötrað kaffi áður en menn kvöddust og héldu heim á leið.

Þetta er eins og áður sagði annað árið í röð sem Volvoklúbburinn býður félagsmönnum að kíkja á söfn í nágreni við höfuðborgarsvæðið og óhætt að lofa að þessi viðburður verður árlegur hjá stjórninni. Báðir viðburðir hafa heppnast einstaklega vel og verið mikil ánægja með þá hjá þeim sem mæta og eru strax komin drög að ferðinni á næsta ári.

 

Comments are closed.