Þann 29.apríl stóð Volvoklúbbur Íslands fyrir viðburði sem heitir Safnarúnturinn. Þetta var í þriðja skipti sem klúbburinn er með þennan viðburð og hefur hann vakið mikla lukku meðal félagsmanna. Ferðin í ár var heldur fámennari en fyrri ferðirnar en mjög góðmenn. Hópurinn kom saman við Bauhaus planið þar sem fólk kynnti sig og fór aðeins yfir bílana hjá hvert öðru. Þaðan lá svo leiðin inn í Hvalfjörð á Hernámssetrið sem margir hafa sennilega keyrt framhjá en fáir gefið sér tíma til að kíkja á safnið. Gauji litli tók vel á móti okkur og sagði hópnum margar sögur frá hernámsárunum í bland við skemmtilegar sögur af gestum sem hafa komið á safnið. Þegar umfjöllunarefni safna er til þess að gera nálægt okkur í tíma þá er ekki ólgengt að fólk mæti sem var uppi á þeim tíma sem safnið fjallar um. Það kom hópnum mjög á óvart hversu umfangsmikil hersetan var í Hvalfirði og einnig hversu mikil áhrif vera hersins hafði á molbúana sem við vorum þegar þeir komu. Safnið er stútfullt af hlutum tengdum hernáminu og við mælum með að reikna með góðum tveimur tímum þegar farið er á það til að komast yfir allt það efni sem er til sýnis.
Úr Hvalfirðinum lá svo leið hópsins að Hvanneyri í Borgarfirði þar sem við skoðuðum Landbúnaðarsafn Íslands. Þar fengum við túr um safnið með Ragnhildi safnstjóra sem fór yfir sögu safnsins og þá hluti sem safnið er með til sýnis. Safnið er í Halldórsfjósi sem var reist á árunum 1928-29 og var þá næst stærsta fjós landsins. Fjósið þótti mjög nýmóðins þegar það var smíðað enda var farið til Danmerkur og Þýskalands til að kynna sér uppbyggingu fjósa áður en það var reist. Það sem vakti mesta lukki meðal félagsmanna var fjöldi farartækja á svæðinu en safnið á fjölda tækja sem hafa mikið sögulegt gildi. Hópurinn skellti sér svo á Grillhúsið í Borgarnesi til að næra sig fyrir heimferðina þar sem var mikið spjallað og fólk mjög ánægt með daginn.
Volvoklúbburinn þakkar þeim Raghildi og Gauja Litla fyrir frábærar móttökur og hvetjum félagsmenn til að kíkja á þessi söfn ef þeir eiga leið framhjá.