Safnarúnturinn 2024

Þann 18.maí var Volvoklúbbur Íslands í fjórða skipti með Safnarúntinn. Þessi viðburður hefur verið vinsæll meðal félagsmanna í öll skiptin og var hann sérstaklega vel heppnaður í ár. Vel yfir 20 manns á 11 bílum tóku þátt í viðburðinum en í ár hafði stjórnin smá áhyggjur af því að mikill akstur myndi draga úr áhuga félagsmanna en sá ótti reyndist óþarfur. 

Þar sem leiðin lá um suðurströndina þá var Safnarúnturinn sameinaður Suðurlandsrúntinum þetta árið en sumir félagsmenn þekkja Suðurlandsrúntinn vel enda búinn að vera fastur liður frá stofnun klúbbsins. Það viðraði vel á hópinn sem lagði af stað frá gömlu Shell stöðinni við Vesturlandsveg og lá leiðin yfir Hellisheiði og fyrsta stopp á N1 planinu á Selfossi. 

Frá Selfossi lá leiðin á Hvolsvöll þar sem var tekið stutt stopp og Þór frá Eldstó kíkti á hópinn á sínum gullfallega Volvo 142. Þaðan lá leið hópsins að Skógum þar sem við fengum leiðsögn um byggðasafnið og að því loknu var hópnum hleypt inn í stóra skemmu þar sem safnið geymir talsvert af ökutækjum og vélum sem eru ýmist í eigu safnsins eða í varðveislu hjá þeim í misjöfnu ástandi. Þessi óvænta skoðunarferð þótti hitta vel í mark. Þegar búið var að skoða nóg í geymslunni var stefnan tekin á samgöngusafnið en þar magnað safn af bifreiðum, vélum og vinnutækjum ásamt því að þar sem mikið fjarskiptasafn. Við hvetjum alla sem eiga leið framhjá að gefa sér tíma til að labba í gegnum söfnin á Skógum en það er betra að hafa nægan tíma þar sem rúmlega tveggja tíma stopp dugði ekki til að renna í gegnum allt sem þarna er að sjá.

Þar með var Safnarúntinum lokið og Suðurlandsrúnturinn tók við en frá Skógum fórum við aftur á Hvolsvöll og stoppuðum á Kaffi Eldstó þar sem Þór tók höfðinglega á móti okkur eins og venjulega. Þar var mikið rætt um það sem fyrir augu bar á safninu og menn deildu sögum af núverandi og fyrrverandi bifreiðum sínum á meðan hópurinn nærði sig. Við í stjórn Volvoklúbbs Íslands erum mjög ánægðir með viðburðinn og er þetta fyrsti viðburðurinn þar sem öll stjórn klúbbsins mætir á rúnt viðburð og einnig var gaman að sjá hversu margir tóku maka með sér. Við þökkum þeim sem mættu fyrir að gera viðburðinn skemmtilegan og eftirminnilegan.

Comments are closed.