Það styttist óðum í safnarúnt Volvoklúbbs Íslands en þetta verður í fjórða skiptið sem við í stjórninni skipuleggjum safnarúnt fyrir félagsmenn okkar. Þar sem leið okkar liggur um kunnuglegar slóðir þetta árið þá ætlum við að sameina safnarúntinn við elsta virka viðburðinn okkar sem er Suðurlandsrúnturinn. Áður en við heimsækjum Eldstó ætlum við samt að kynna okkur söfnin á Skógum og er búið að semja við staðarhaldara að við fáum leiðsögn um Byggðasafnið. Á Skógum er byggða-, húsa- og samgöngusafn og þvi margt að sjá og skoða.
Búið er að ákveða dagsetninguna sem er laugardaginn 18.maí og þar sem um talsverða vegalengd er að ræða þá stefnum við á að hafa brottför ekki seinna en hálf tíu um morguninn. Það hefur nánast undantekningarlaust bæst í hópinn á Selfossi og því verður stoppað þar eins og venjan hefur verið í Suðurlandsrúntinum okkar. Við munum svo taka stutt stopp á Hvolsvelli áður en við keyrum svo að Skógum og ef veður er gott þá er stefnt á hópmyndatöku af bílaflotanum með Skógarfoss í bakgrunn og einnig ef við fáum leyfi til að keyra upp að torfbænum að taka myndir af bílunum þar, það fer eftir stundvísi okkar hvort við reynum þetta fyrir eða eftir að hafa skoðað safnið.
Þegar við erum búin að fræðast um allt á Skógum kíkjum við í kaffi á Eldstó. Þar verður aftur hópmyndataka af bílaflotanum og hefur Þór passað að stæðin beint fyrir framan Eldstó séu laus þegar við mætum og þar verða allir að bakka í stæðin. Þar getum við mælt með að félagsmenn næri sig en þar er boðið upp á veglega hamborgara en einnig gott úrval af tertum ef einhverjir vilja. Ferðinni er síðan formlega lokið þegar við kveðjum Eldstó. Við vonum að sem flestir félagsmanna sjái sér fært að mæta.
Dagskrá dagsins:
Skráning á viðburðinn á fésbókinni.