Skúrinn: Volvo 240 V8

Skúrinn er nýr liður hérna á síðunni og munum við reglulega heimsækja bílskúra landsins þar sem verkefnið er Volvo tengt. Þeir sem liggja á skemmtilegum verkefnum og vilja deila því með okkur mega endilega senda okkur póst á postur@volvoklubbur.is, merkt Skúrinn.


Skúrinn heimsækir að þessu sinni Benedikt Arnar, en hann vinnur nú að nokkuð óvenjulegu en afar áhugaverðu verkefni.

Við fyrstu sýn er um að ræða 1990 módel af Volvo 240 GLT, en GLT var einmitt ein glæsilegasta týpan af 240, og kemur hann með orginal rafmagnsrúður og handknúna topplúgu. Upphaflega kemur bíllinn með B230F mótor og beinskiptur. Sú ágæta saumavél er þó fjarri góðu gamni í dag því þegar nánar er litið, sést glitta í merki, merki sem á fátt skilt við Volvo nema kannski að merkin eru framleidd í sömu heimsálfu.
Þarna er um að ræða BMW mótor, nánar tiltekið (fyrir nördana) M60B40, fjögurra lítra V8 mótor sem skilar um 282 stóðhestum. Aftaná mótorinn kemur svo sjálfskipting. Mótor og skipting koma orginal í BMW e32 740.

Bíllinn er þó ekki alveg orginal GLT að öðru leiti. Búið er að fjarlægja orginal fjöðrunarkerfið og setja í staðinn svokallað coilover en með því er hægt að stilla hæðina á bílnum handvirkt. Í bílnum er einnig læst drif og öflug anti-sway bar sem gerir það að verkum að hann er stöðugri á veginum.

Það má því segja að þessi Volvo er sannarlega úlfur í sauðagæru.

Hér koma svo nokkrar myndir af dýrðinni:

Hann mun rúlla um á þessum felgum, Rondell 58 18″ orginal BMW

Samkvæmt háleynilegum upplýsingum okkar er mótorinn farinn að ganga um borð í Volvo og er þetta verkefni því á loka stigi.

Skúrinn fylgist að sjálfsögðu með framhaldinu!

Comments are closed.