Suðurlandsrúnturinn 1. júní

Laugardaginn 1.júní stóð Volvoklúbbur Íslands fyrir stuttri hópferð um Suðurlandið. Þetta var í sjötta skiptið sem þessi ferð er farin og fyrir suma er þetta orðinn fastur liður í að hefja ferðasumarið. Skipuleggjendur ferðarinnar voru ekki bjartsýnir á góða mætingu þegar í ljós kom að ferðin var farin í samkeppni við flugdaginn, sjómannahelgina og litahlaup en vegna fyrri reynslu á að breyta dagsetningu var ákveðið að halda sig við ferðadag.

Fjórir fallegir Volvovagnar lögðu af stað frá Shell við Vesturlandsveg í blíðskaparveðri. Þegar hópurinn keyrði framhjá Olís í Norðlingaholti keyrðum við framhjá Volvo 144 og hugsuðum með okkur að það væri gaman ef viðkomandi myndi elta hópinn. Þegar hópurinn stoppaði svo á Selfossi kom það okkur skemmtilega á óvart að það reyndist raunin. Á Selfossi bættist líka heldur betur í hópinn, tveir 240 gullmolar bættust í lestina ásamt einum 850.

Það voru því átta Volvovagnar sem mættu í hlaðið hjá Þór á Eldstó þetta árið sem er mesti fjöldi frá upphafi. Eftir stuttar sögustundir um bílana og skoðunarferðir settist hópurinn inn á Eldstó og fólk nærði sig. Það var augljóst að Volvo-arnir drógu að sér athygli þar sem mikið var um að fólk stoppaði á planinu til að skoða og taka myndir af bílunum. Eftir góðar umræður var viðburðnum síðan slitið og haft var orð á að það mætti  endilega reyna að gera meira úr þessum viðburði þannig að á næsta ári er stefnan á að hafa hann lengri og fleiri skipulögð stopp.

 

Comments are closed.