Laugardaginn 3.júní stóð Volvoklúbbur Íslands fyrir árlegum viðburði þar sem við hvetjum áhugafólk um Volvo til að taka smá rúnt með okkur á Hvolsvöll þar sem hjónin Þór og Helga hafa alltaf tekið vel á móti hópnum og inni á kaffihúsinu þeirra Eldstó er notalegt að sitja og spjalla.
Hópurinn hittist á Vesturlandsvegi þar sem var farið yfir bílaflotta þeirra sem mættu og skipst á sögum. Þegar fyrstu rigningardroparnir féllu til jarðar var stefnan sett á Selfoss þar sem oftar en ekki hafa nokkrir sunnlenskir áhugamenn hafa bæst í hópinn. Það voru frekar daprar heimtur þetta árið en þó fjölgaði um einn í hópinn.
Frá Selfossi lá leiðinn að Kaffi Eldstó þar sem gullfallegur Volvo Þórs og Helgu stóð fyrir utan og tók á móti hópnum og eftir stutt spjall á stéttinni fyrir utan var mál manna að næra sig. Yfir matnum flæddu gamlar og skemmtilegar Volvo sögur frá Þór og félagsmenn lumuðu á nokkrum góðum sögum til viðbótar yfir kaffibolla. Eftir að hafa skoðað betur bílaflota hópsins og gott spjall á stéttinni var rúntinum slúttað og menn héldu sáttir heim á leið.