Volvo 850 týpan fagnar nú 30 ára afmæli. Þessir bílar hafa verið vinsælir á Íslandi um árabil og bílar sem hafa enst vel og reynst vel á Íslandi. Fyrstu Volvo 850 bílarnir komu til Íslands árið 1992. Á Íslandi voru þessir bílar meðal annars notaðir af Lögreglunni.
Árið 1991 sýndi Volvo á sér nýjar hliðar og kynnti til sögunnar Volvo 850 en þessir bílar voru mjög frábrugðnir þeim bílum sem Volvo hafði áður framleitt. Volvo 850 var fyrsti bíllinn í heiminum sem bauð upp á loftpúða í hliðum bílsins en aðrar helstu nýjungarnar voru þverliggjandi 5 sílindra vélar, framhjóladrif, Delta Link fjöðrunarkerfi að aftan og SIPS hliðarárekstrarvörn.
Ytra útlit bílsins átti augljóslega ættir að rekja til Volvo 740 og 940 bílanna. Fimm dyra útgáfan af Volvo 850 kom síðan á markað 1993 og naut mikilla vinsælda.
Fljótlega eftir útgáfu 850 bílsins hlaut hann fjölmargar viðurkenningar en fáir nýjir bílar hafa hlotið jafn margar viðurkenningar svo stuttu eftir útgáfu.
Árið 1995 kom á markað Volvo 850 T-5R sem var þróaður í samvinnu við Porsche og framleiddur í takmörkuðu magni. Sá bíll var með 240 hestafla turbo vél og eingöngu fáanlegur svartur, kremgulur og flöskugrænn. Ári seinna fékk hann nafnið Volvo 850R, fjöldatakmörkun var aflétt og mun fleiri litir í boði.
Hægt var að fá Volvo 850 fjórhjóladrifinn(AWD) og var það í fyrsta skipti sem Volvo bauð upp á slíkt í fólksbifreiðum.
Tækniupplýsingar:
Framleiðsluár: 1991-1996.
Framleiðslufjöldi: 716.903 stk.
Vélar: 2.0 lítra 5 cyl, 2.5 lítra 5 cyl, 2.0 Turbo 5 cyl og 2.3 Turbo 5 cyl bensínvélar 2.5 5 cyl Túrbo dísel vél.
Skiptingar: 4 þrepa sjálfskipting og 5 gíra beinskipting