Volvo-kona !

Eftirfarandi grein er endurbirt með heimild Morgunblaðsins sem birti greinina þann 10. mars 2002. Höfundur greinar er, Birna Anna Björnsdóttir.

ÉG er Volvo-kona. Ég hef átt tvo Volvoa og unni þeim báðum heitt. Þeir voru nákvæmlega eins, silfurgráir station-bílar, annar árgerð ’85 og hinn ’87. Stórkostlegir bílar og fyrir mér voru þeir ekki bara bílar heldur líka félagar (ég átti aldrei…

ÉG er Volvo-kona. Ég hef átt tvo Volvoa og unni þeim báðum heitt. Þeir voru nákvæmlega eins, silfurgráir station-bílar, annar árgerð ’85 og hinn ’87. Stórkostlegir bílar og fyrir mér voru þeir ekki bara bílar heldur líka félagar (ég átti aldrei gæludýr…). Sem Volvo-eigandi til margra ára hef ég komist að því að til er Volvo-fólk. Fólk sem vill bara eiga Volvo, þykir sérstaklega vænt um bílana sína og hefur gaman af því að tala um þá. Þetta tengist engri bíladellu. Ég er til dæmis alveg laus við bíladellu – þekki ekki Toyotu frá Volkswagen – en ég hef afar gaman af því að tala um Vollann minn, sérstaklega við annað Volvo-fólk. Mér hlýnar alltaf um hjartarætur þegar einhver segir mér að hann/hún sé Volvo-manneskja eða að hann/hún eigi foreldra eða annan náinn ættingja sem séu það. Ég væri tilbúin að fara með ókunngri Volvo-manneskju á kaffihús bara til að tala um Vollana okkar og gott ef ég myndi ekki mæta á Volvo-morgna í kirkjum eða félagsheimilum (ég á ekki börn heldur…).

Volvoar eru traustir og umfram allt öruggir bílar. Þeir eru ekkert sérstaklega töff, allt í lagi, þeir eru alveg skelfilega hallærislegir, en ég ber virðingu fyrir þeim sem geta hafið sig yfir töffheit þegar bílar eru annars vegar.

Þegar ég flutti hingað til Berkeley í Kaliforníu var fjölmargt sem vakti athygli mína. Meðal þess sem kom mér mest á óvart og hvatti til flestra upphrópana af minni hálfu er sú merkilega staðreynd að hér er allt morandi í Volvoum. Ég held að ég geti með góðri samvisku sagt að Volvo sé algengasta bíltegundin hér, sem mér finnst stórfurðulegt þar sem ég hef farið nokkuð víða um Bandaríkin og varla séð einn einasta. Þetta var alveg ótrúlega gaman fyrir Volvo-konuna og fyrstu dagana mína hér tók ég varla tvö skref án þess að segja: “Nei, sjáðu Volvoinn!” Ég gerði óvísindalegar rannsóknir, taldi þá á bílastæðum og reiknaði hlutföll – oft eru þeir allt að þriðjungur bíla á bílastæðum hér. Svo skoðaði ég bílana nánar og tók eftir því að þeir eru nær undantekningarlaust mjög vel farnir, en flestir eru frekar gamlir – jafnvel eldri en mínir gömlu skrjóðar. Að sjálfsögðu skoðaði ég líka eigendurna, bandaríska Volvo-fólkið, en þá fóru að renna á mig tvær grímur. Þetta var nefnilega ekki svona heiðarlegt Volvo-fólk sem hefur sig yfir töffheit, heldur var þetta fólk sem snobbar, já snobbar fyrir Volvoum.

Ótrúlegt en satt þá þykir það “fínt” hér í vissum kreðsum að keyra um á sænskum bílum. Berkeley á sér náttúrlega sögu sem hippabær númer eitt og hér er mikið af gömlum hippum sem geta bara hugsað sér að keyra bíla, ef bílarnir eru afurð sósíal-demókratísks samfélags. Þannig er það pólitísk yfirlýsing að keyra um á Volvo. Hér í hippabæ þykir allt skandinavískt mjög fínt. Húsgagnaverslanir sem sérhæfa sig í “skandinavískri hönnun” eru á hverju strái og Volvo-umboðið er stærra en Ford-umboðið.

Mér er fyrirmunað að átta mig á því hvers konar snobb þetta er, það er að segja hvort verið sé að snobba upp eða niður á við. Í vissum skilningi er þetta niður-á-við-snobb, því hugmyndafræðin á bak við skandinavíska hönnun er sú að allir geti fengið vandaða vöru á viðráðanlegu verði – gæði og einfaldleiki í fyrirrúmi. Þess vegna fíla gömlu hipparnir þetta. En þegar búið er að útbúa vöruna fyrir bandarískan markað og flytja hana yfir hálfan hnöttinn kostar hún miklu meira en aðrar sambærilegar vörur hér og þannig hefur þetta snúist upp í andhverfu sína; upp-á-við-snobb. Mér finnst þetta mjög leiðinlegt, því eitt af því sem ég kann best að meta við Vollann minn er hvað mér fannst ímynd hans laus við allt snobb. Þetta var bara traustur bíll. Svolítið halló, en það var allt í lagi.

Héðan í frá mun ég hins vegar fíla mig eins og gamlan hippa, sem eignaðist pening en skammast sín fyrir það og friðar samviskuna með því að keyra um á sósíalískum bíl. Nei annars, ég ætla að halda áfram að vera ánægð með Vollann á sama hátt og áður, enda hefur hann alltaf verið meira en bara bíll fyrir mér. Og ég hlakka til að segja honum að úti í löndum sé til fólk sem finnst hann fínn á pólitískum lífsstíls-forsendum. Honum bregður kannski að heyra, eftir hans góða ævistarf í hægriumferðinni á Íslandi, að hann sé eftir allt saman vinstrisinnaður.

Heimild: http://www.mbl.is/greinasafn/grein/656513/

Comments are closed.